Arngrímur Kristinsson kom með tvo grjótkrabba (Cancer irroratus) á Náttúrustofuna í dag sem hann fann í höfninni í Bolungarvík.
Grjótkrabbar fundust fyrst við Íslandsstrendur árið 2006. Grjótkrabbi (Cancer irroratus) er norðuramerísk krabbategund með náttúrulega útbreiðslu frá S-Karólínu norður til Labrador.
Grjótkrabbinn er tiltölulega stór krabbategund sem getur orðið allt að 15 cm að skjaldarbreidd. Hann nýtir sér búsvæði frá fjöru og niður á allt að 750 metra dýpi. Fullorðnir einstaklingar hafa mjög vítt hitaþol og hafa þeir fundist á hitabilinu 0-32°C en eru algengastir á hitabilinu 4-14°C. Auk þess hafa þeir víð seltuþolmörk, en seltugildið má vera frá 8,5‰ (prómill eða þúsundustu partar) upp í 65‰.
Grjótkrabbi er alæta og samanstendur fæða hans meðal annars af fiskum, krabbadýrum, burstaormum, samlokum, krossfiskum og ígulkerjum. Töluverður stærðarmunur er á kynjunum, en karldýrin verða stærst 14-15 cm að skjaldarbreidd en kvendýrin sjaldan stærri en 10-11 cm. Kvendýrin verða að jafnaði kynþroska 5,5-6 cm en karldýrin heldur stærri eða um 7 cm. Mökun og frjóvgun eggja á sér stað á haustin. Kvendýrin bera frjóvguðu eggin álímd afturbolsfótum fram að klaki næsta vor eða í allt að 10 mánuði. Þann tíma sem kvendýrin bera egg láta þau lítið fyrir sér fara og eru að mestu niðurgrafin í sjávarbotninn. Nýfrjóvguð egg eru ljósappelsínugul að lit en dekkjast með tímanum og verða brún- eða svargrá þegar komið er að klaki. Frjósemi fer eftir stærð dýranna og getur til dæmis 9 cm breitt kvendýr verið með um 330.000 egg. Fósturþroskun lirfanna á sér stað í eggjunum og úr þeim klekjast fullþroska zoea-lirfur. Sviflæg lirfustig krabbans eru sex, það er fimm zoea-stig auk megalopa-stigs, sem er millistig sviflægrar lirfu og botnlægs krabba. Klak lirfanna á sér stað á tímabilinu frá maí og fram í október.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is