Sigríður Einarsdóttir og Þór Árnason voru á göngu þegar þau rákust á þennan rekavið í smábátahöfninni á Patreksfirði. Þau tóku myndir og fengu fljótlega greiningar á tegundinn frá Guðnýju Elínborgardóttur. Þetta er glæsileg þekja af hrúðurkarlinum helsingjanef (Lepas anatifera) sem lifir ekki við Íslandsstrendur en hefur borist hingað með sjávarstraumum.
Hrúðurkarlar eru krabbadýr innan hóps sem kallast skelskúfar (Ciripedia) og telur um 1.200 tegundir. Þeir festa sig við einhvers konar undirlag. Þessar tegundir skiptast í flokka og undirflokka. Einn þessara undirflokka er Lepadomorpha en það eru hrúðurkarlar sem hafa stilk til að festa sig við undirlag og ein þessara tegunda er helsingjanef.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is