Starfstöðvar:

Á norðanverðum Vestfjörðum
Aðalstræti 12
415 Bolungarvík
456-7005
nave[hjá]nave.is
 
Á Ströndum/Reykhólum
Höfðagötu 3
510 Hólmavík
451-3105
hafdis[hjá]nave.is
maria[hjá]nave.is
 
Á sunnanverðum Vestfjörðum
Skor þekkingarsetur
Aðalstræti 53
450 Patreksfjörður
832-8418
margretth[hjá]nave.is
 
Í fornleifafræði
Fjölheimar í Sandvíkursetri við Bankaveg
800 Selfoss
895-1228
margrethronn[hjá]gmail.com

Umhverfisátak með Bolungarvíkurkaupstað og svínabeit

Útbreiðsla kerfils og lúpínu við malargrifjuna og skógræktina árið 2014.
Útbreiðsla kerfils og lúpínu við malargrifjuna og skógræktina árið 2014.
1 af 3

Náttúrustofan hefur verið í samstarfi með Bolungarvíkurkaupstað frá árinu 2014 með hléum í því að reyna sporna við útbreiðslu ágengra tegunda í sveitarfélaginu og þess helst, skógarkerfil (Anthriscus sylvestris) og alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis). Árið 2014 var útbreiðsla og þekjuskráning þessara tegunda kortlögð ásamt útbreiðslu njóla (Rumex longifolius) og hvannar (Angelica archangelica) innan sveitarfélagsins (https://www.nave.is/utgefid_efni/skra/216/). 

Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) er orðin útbreidd tegund um allt land og var mest af henni í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2005 (https://www.ni.is/grodur/agengar-plontur/skogarkerfill). Nú hefur kerfillinn smásaman orðið mjög útbreidd tegund í sveitarfélögum á Vestfjörðum til dæmis í Bolungarvík, á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og hafa lúpínubreiður orðið undir í samkeppninni við hann. Skógarkerfillinn er planta sem sækir í næringarríkan jarðveg og þar sem lúpínan breytir efnasamsetningu jarðvegs og bindur nitur sækir kerfillinn mikið í breiðurnar. Við stöndum því frammi fyrir því hér í Bolungarvík að plantan er farin að dreifa sér í marga garða og á svæði sem hún er ekki velkomin. 

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) er innflutt, stórvaxin planta sem finnst í öllum landshlutum og hefur náð sér vel á strik í kring um þéttbýli (Náttúrufræðistofnun Íslands á.á). Hún þrífst við fjölbreytilegar aðstæður, sérstaklega þar sem búfjárbeit er lítil sem engin og eru engar aðrar íslenskar plöntur líkar þessari tegund (Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni Diðrik Sigurðsson 2018). Vegna þess að lúpínan bindur nitur úr andrúmslofti og á auðvelt með fosfórnám úr jarðvegi (Lambers o.fl. 2013) nær hún góðum vexti á rýru landi ef nægur raki er til staðar og verður gjarnan ríkjandi tegund í gróðurfari (Náttúrufræðistofnun Íslands á.á, Borgþór Magnússon og fl. 2018).  Lúpínan nær bestu vaxtarskilyrðum á úrkomusömum og hlýjum svæðum á sunnanverðu og suðaustanverðu landinu en síst á þurrum svæðum inn til landsins norðanlands en dafnar líka vel á snjóþungum svæðum út til stranda (Borgþór Magnússon og fl. 2018). Hún hefur breiðst inn á hálf- eða vel gróið land og finnst einnig til fjalla og inn á hálendinu (Náttúrufræðistofnun Íslands á.á).  

Í Bolungarvík er alaskalúpínan farin að dreifa sér mikið á snjóflóðavarnargarðanna og svæði í kring um þá en lúpínufræjum var dreift í fjallið í kring um 1990-1991.

Þegar átakið vaknaði aftur til lífsins eftir smá lægð árið 2018 var farið yfir skráðar staðsetningar tegundarinnar síðan 2014 og sveitarfélagið skannað aftur og nýjir fundarstaðir skráðir. Náttúrustofan gerði að því loknu aðgerðaráætlun um hvernig ætti að standa að því að reyna fækka staðsetningum og sporna við útbreiðslu tegundanna. 

Sveitarfélagið sló töluvert svæði, bæði 2014 og 2018 og verður slættinum haldið áfram með krafti þetta ár. Auk þess tóku sjálfboðaliðar þátt í hreinsun á hreinsunardegi síðastliðið sumar með góðum árangri (http://www.ruv.is/frett/kerfill-fekk-ad-finna-fyrir-thvi-i-bolungarvik).

Skemmtilegt er að skoða myndir sem teknar voru að lúpínu/kerfilssvæði í malargryfjunni sem að hluta til er staðsett á skógræktarsvæði Bolungarvíkur frá árinu 2014 og frá hausti 2017 þar sem sést greinileg niðurstaða á slættinum frá  2014 (sjá myndir 1 og 2). 

Til viðbótar við sláttinn í ár verður fengin utanaðkomandi hjálp frá svínum og hefur það vakið töluverða athygli í fjölmiðlum (http://www.ruv.is/frett/vilja-beita-svinum-a-kerfil-i-bolungarvik), (https://www.visir.is/k/acf9c602-d7aa-4784-9726-e36db2c59252-1552898076267). 

Fengin verða tvö svín í byrjun sumars sem fá úthlutuð ákveðin svæði sem þau sinna og rífa upp gróður og róta í jarðveg eins og þeim er einum lagið en þegar þau hafa lokið sinni vinnu verður farið í uppgræðslu á svæðunum. Náttúrustofan kemur að undirbúningi verkefnisins og mun taka út gróður og jarðveg fyrir og eftir að svínunum hafa verið slepptum lausum og mun vakta ástand landsins á meðan beitinni stendur. Svipað verkefni var prófað á Suðureyri (http://www.ruv.is/frett/kindur-hefta-utbreidslu-kerfils) en Ingibjörg Svavarsdóttir skrifaði Bs verkefni sitt um rannsóknia frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Jafnvel verður skoðað að nota einnig hesta á nokkur svæði til samanburðar eða aðstoðar við hreinsunina. 

Áhugavert verður að taka þátt í þessu verkefni áfram með svona skemmtilegum viðbótum og vonumst við til þess að bæjarbúar taki þátt í átakinu með okkur eins og í fyrra, því án aðkomu sjálfboðaliða og vökulum "kerfilsaugum" verður þetta óvinnandi vegur. 

 

Heimildir:

Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni Diðrik Sigurðsson 2018. Langtímaáhrif alaskalúpínu á gróður og jarðveg á Íslandi. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-18005. Náttúrufræðistofnun Íslands: Garðabær.  

Lambers, H., J.C. Clements og M.N. Nelson 2013. How a phosphorus-acquisition strategy based on carboxylate exudation powers the succcess and agronimic potential of lupines (Lupinus, Fabaceae). American Journal of Botany 100: 263–288.  

Náttúrufræðistofnun Íslands á.á. Alaskalúpína. Sótt á vef þann 5.11.2018 af: https://www.ni.is/grodur/agengar-plontur/alaskalupina  

 

Til baka

Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is